Samfélag samsyndara

"Hvar er hún Gulla?," - gall í frú einni sem skimaði sem óð væri yfir sundlaugasvæðið, "hún hefur bara ekki sést í viku," - dæsti hún um leið og hún hlammaði sér við hlið mér í heita pottinum í morgun. 

sundkonurÞær voru skrafhreifnar frúrnar í pottinum í morgun og veittu morgunsöng þrastanna harða samkeppni.

Í morgunsundinu var hvorki minnst á Trump né Brexit, heldur var dularfull fjarvera frú Gullu og fleiri helsta ráðgátan. Líklegasta skýringin er auðvitað fjandans flensan, nema að Gulla og co. séu stungin af til Tene,  "þau fara á hverju ári!" - unaðslegt.

Þegar að ég stakk mér til sunds voru frúrnar enn að hjala, líkt og þær gera á hverjum morgni. Bókhald um mætingar sundfélaganna er mikilvægur liður í samfélagi samsyndara, því að þar skiptir hver kroppur máli - fjarvera getur nefninlega verið dauðans alvara.

Þessar frúr vita sem er að hver dagur er gjöf og njóta hans til síðasta dropa. Allt þjas um heimsmál er hjóm eitt þegar að Gullur þessa heims hafa ekki sést á bolnum í dágóðan tíma.

Já kærleikurinn á sér ýmsar birtingamyndir. 

sundkonur

 

 

 


Markvarsla orðanna

Að setja börnum mörk er eitt hið mikilvægasta sem að við hinir eldri kennum börnum okkar, að segja nei þegar að við á og já þegar að það hentar. En hvernig erum við sjálf þegar að það kemur að markvörslu í eigin lífi? Erum við hinir fullorðnu ofurseld hræðslunni við álit annarra og því ekki virk í eigin landamæravörslu? 

Þegar að ég var krakki var ég iðulega skömmuð fyrir að vera of mikil "Lína" þar sem að ég sagði skoðun mína á mönnum og málefnum oftar en ekki óumbeðin og þótti það hið versta mál. Krakki með kjaft. Það þótti ekki mikið smart. En hvað var svo slæmt við það? Oftar en ekki setti ég fram skoðanir mínar að illa rökstuddu máli, sem hefði gefið hinum fullorðnu tækifæri til að kenna barninu rökhugsun og æft það í framsetningu á skoðunum sínum. Sem ég reyndar tamdi mér síðar meir og er lærimeisturum mínum þakklátt fyrir að hafa fengið uppeldi á því sviði. 

Hvernig væri ef að meginstef í uppeldi þjóðar á framtíðinni væri byggt á grunni málefnalegrar umræðu og skynsemi í framsetningu á rökum og málefnum. Sama fólk og skammast á netinu, algjörlega blygðunarlaust og eys skömmum hvert yfir annað eins og kosningaloforðum á góðum degi, hneyklast á börnum sem rífa kjaft!

Það að hafa skoðun á mönnum og málefnum er jákvætt, og það að kunna sér mörk og fylgja eigin sannfæringu er hið besta mál, en framsetningin skiptir öllu. 

Hvetjum,börn til að segja skoðanir sínar, en kennum þeim að setja þær fram með vönduðum hætti. Það að hafa sjálfstæða hugsun er mikilvæg og vísa sem er aldrei nógu oft kveðin en hana má ekki kyrja á kostnað náungans. Níð eru ekki rök, og bera mælenda sínum aldrei fagurt vitni. Eltum ekki skoðanir náungans hugsanalaust, tökum alltaf málefnalega afstöðu.

Að elta háværasta hanann kann ekki góðri lukku að stýra. 

Kennum "Línunum" en skömmum þær ekki. Verum börnum okkar mikilvæg fyrirmynd - setjum orðræðu mörk, temjum okkur kursteisi og rökfestu. Skítkast er ekki til eftirbreytni.

Dveljum í gleðinni

Ásta 


Vettvangur tjáningar

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hef ég ekki kynnt mér vettvang bloggs fyrr. Kona sem hefur gaman af því að tjá sig um ævintýri hversdagsins og daglegar hamfarir hefur þar til núna ekki nýtt þennan vettvang til frásagnar, en nú verður breyting á.

Flækjufóturinn ég og hrakfallaköttur hefur frá nægu að segja, þó ekki nema sé af eigin ævintýrum og slagsmálum við bílskúrshurðar og innkaupakerrur. Mér er sitthvað til lista lagt þegar fastir hlutir eru annarsvegar. Það virðist vera svo að húsgögn eiga það til að færast til og rekast utan í mig við ótrúlegustu tilefni. Ekki það að ég biðji hurðahúna og þröskulda að ganga í veg fyrir mig, en það virðist vera raunin. Útkoman er fagurlega skreyttur líkami, alsettur marblettum í öllum regnboganslitum. Jafnvel færustu tattúmeistarar gætu ekki gert betur. 

Lóan gerði vart við sig í morgun, hún og hennar dirrindí eru fyrirheit um betri tíma. Sálin andvarpar og dregur andann léttar - loksins að koma vor. Og þá er komin tími á hið árlega voróp.

 

Dveljum í gleðinni

 

Ásta

 

 

 

 


Um bloggið

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Höfundur

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir
Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Kattarkona með krullur og kaffidellu á háu stigi.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • sundkonur
  • sundkonur
  • ...llpaper-002
  • ...rolla
  • ...summerday

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband